152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir góða ræðu og taka undir með honum, sérstaklega punktinn um vanskilaskrá og það að líta sérstaklega til fjölda heimila á vanskilaskrá sem sérstaks viðmiðs um það hvernig fólk hafi það. Ég tók eftir því að í gær birtist á vef fjármálaráðuneytisins tilkynning þar sem vitnað er í minnisblað um að hækkandi orkuverð hafi haft minni áhrif á fjárhag heimila á Íslandi en víða annars staðar, sem er auðvitað borðleggjandi vegna þess að hlutdeild olíu og orku í útgjöldum hérna er minni, og sérstaklega kostnaður vegna kyndingar o.s.frv. Það gefur augaleið. Það er horft algjörlega fram hjá því í þessu minnisblaði og er ekki nefnt, a.m.k. ekki í tilkynningunni — ég vona að þetta sé ekki allt minnisblaðið, þessi tilkynning, af því að þetta er ósköp rýrt — að húsnæðisverð hefur hækkað meira á Íslandi en víða annars staðar. Það kemur t.d. fram í nýlegri skýrslu frá Nordregio, rannsóknarstofnun norrænu ráðherranefndarinnar, að húsnæðisverð á Íslandi hækkaði mest af öllum Norðurlöndunum núna í heimsfaraldri. Verðbólgan hérna er náttúrlega knúin áfram af húsnæðisliðnum að miklu leyti, eins og við þekkjum. Húsnæðiskostnaður er auðvitað einhver stærsti útgjaldaliðurinn hjá flestum heimilum en samt fannst hæstv. fjármálaráðherra viðeigandi áðan að taka húsnæðisliðinn út fyrir sviga, eins og það að húsnæðismarkaðurinn sé sökudólgurinn á bak við verðbólguna geri verðbólguna eitthvað skárri fyrir heimilin. Hvað finnst hv. þingmanni um slíkan málflutning?