152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta kemur beint inn á það sem ég nefndi í ræðu minni, að menn kannist kannski svolítið við það hver ábyrgð þeirra er. Þetta er angi af því sem stundum er uppi, það er hægt að heimfæra þetta upp á það, þ.e. að þegar efnahagurinn batnar er það ríkisstjórninni að þakka en þegar efnahagurinn versnar er það einhverju öðru að kenna. Þetta hefur mér fundist vera mantran í öllu. Þegar við erum að tala um hag heimilanna þá skiptir auðvitað allt máli. Við getum ekki tekið einhvern einn lið út fyrir sviga og haft hann út undan þegar við erum að tala um þetta.

Ég verð líka að nefna að það hefur svolítið borið á því hér í þessum þingsal að menn hafa verið að nota þennan ræðustól til að skella sér í hálfgerða prófkjörsbaráttu og tala um það hverjum sé um að kenna að húsnæðisverð hafi hækkað mikið. Þar hlaupast menn að sjálfsögðu mjög mikið undan ábyrgð sinni og kenna gjarnan Reykjavíkurborg um, þrátt fyrir að öll gögn sýni það svart á hvítu að uppbygging í borginni hefur verið með þeim hætti að henni verður ekki kennt um stöðuna. Svo að ég svari spurningunni bara beint þá kann ég ekki að meta þann málflutning sem boðið hefur verið upp á í þessu samhengi. Ég vonast eiginlega til þess að sama hvernig svo sem spilast úr varðandi þróun á húsnæðismarkaði þá kannist menn a.m.k. við ábyrgð sína og geri ekki lítið úr þeim afleiðingum sem fylgja hækkandi húsnæðisverði, óháð því hvort húsnæðisliðurinn er inni í vísitölunni eða ekki.