152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar og taka undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns. Við fengum auðvitað ágætisnasasjón af þessu í gær þegar greiningardeild hagdeildar ASÍ gaf út góða skýrslu um það hvernig húsnæðisstuðningur hefur þróast síðastliðin tíu ár eða svo. Þar fengum við að sjá hvernig húsnæðisstefna stjórnvalda er í raun til þess fallin að ýta upp verði. Við sjáum að það er búið að veikja vaxtabótakerfið en í staðinn fara í almennan stuðning sem er alltaf frekar til þess fallinn að færa efri millitekjuhópum stuðning, þessi séreignarsparnaðarleið. Þetta er auðvitað húsnæðisstuðningur af því tagi að hann ýtir líka upp fasteignaverðinu og hækkar þannig þröskuldinn fyrir fólkið sem er ekki komið inn á fasteignamarkaðinn. (Forseti hringir.) Þetta ber því allt að sama brunni og auðvitað liggur ábyrgðin hjá stjórnvöldum.