152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að þakka hv. þingmanni fyrir stórgóða ræðu. Ég vil koma aðeins inn á það sem hann nefndi varðandi vanskilin og hefur líka verið nefnt hér í andsvari því ég staldraði líka við að það væri verið að nota nokkurra mánaða gamlar tölur um vanskil í bankakerfinu sem mælikvarða á stöðu heimilanna. Mögulega ber þetta vott um ákveðna veruleikafirringu gagnvart stöðu fólks en það síðasta sem fólk hættir að greiða af eru húsnæðislánin vegna þess að það lendir í verulegum vanda í framtíðinni ef það lendir á vanskilaskrá. Ég velti því upp í þessu samhengi hvort hv. þingmaður hafi sömu áhyggjur og ég af því að mælikvarði fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra á efnahagsástandið sé þessi eini mælikvarði og að sú vinna sem minni hlutinn hefur kallað eftir, að gerð sé greining og einhver vöktun á ástandinu, eigi sér mögulega ekki stað því að því hefur ekki verið svarað. En það er alltaf vitnað í þessa vanskilatölu. Spurning mín snýr því að áhyggjum af þessu en mig langaði líka að spyrja almennt: Hvað telur hv. þingmaður að skýri þetta andvaraleysi hjá ríkisstjórninni varðandi ástandið? Hvers vegna erum við svona ólík öllum löndum í kringum okkur? Hvers vegna þurfum við sífellt að leita afsakana fyrir því að styðja ekki fólk sem er augljóslega að lenda í vandræðum? Hver er eiginlega munurinn á þessu stjórnarfari? Þetta er farið að valda mér verulegum áhyggjum.