152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur kærlega fyrir þetta. Ég myndi vilja nefna með vanskilin, af því að það var verið að nefna vöntun á greiningu og vöktun, að mér sýnist greiningin og vöktunin fara fram með þeim hætti, ef ég skildi umræðuna rétt fyrr í dag, að innan úr fjármálaráðuneytinu sé tekinn upp síminn og hringt í einhvern bankastarfsmann og spurt hver punktstaðan sé þann daginn og það síðan látið duga. Þetta er einmitt hárrétt. Eins og ég nefndi í ræðu minni þá getum við örugglega haft mismunandi skoðanir á því hvenær kemur að því að það þurfi að grípa til aðgerða og til hvaða aðgerða nákvæmlega eigi að grípa. En það er alltaf hægt að vera í viðbragðinu. Það er alltaf hægt að vera í upplýsingasöfnuninni, greiningunni og vöktuninni, eins og hv. þingmaður nefnir, til þess að viðbragðið, hvenær svo sem menn ætla að koma með það og ég er svolítið farinn að sakna þess að fá að sjá betur á þau spil, verði skilvirkara. Og hvers vegna er þetta svona? Það er vegna þess að þegar kemur að efnahagsmálum, sérstaklega þegar við erum að blanda umræðunni um vexti inn í það, þá láta menn gjarnan reka á reiðanum og vonast til þess að ástandið lagist einhvern veginn af sjálfu sér þannig að ekki þurfi að grípa til mikilla aðgerða. Undirliggjandi er síðan auðvitað þessi staðreynd að við erum með gjaldmiðil sem skoppar upp og niður og það er kannski ein lykilforsenda þess að menn eru alltaf að lenda í vandræðum aftur og aftur. Menn láta reka á reiðanum, vona að ástandið lagist og að ekki komi til þess að grípa þurfi til einhverra aðgerða. En við vitum ósköp vel að við erum í storminum miðjum og lætin eru ekki búin enn.