152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:15]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held reyndar að þetta sé líka ákveðin tegund af pólitík sem er verið að stunda. Það sé mjög meðvitað verið að taka ákvörðun um að styðja ekki við ákveðna hópa því að allar upplýsingar ættu í raun að liggja fyrir. En það er svo annað mál. Mig langaði aðeins til að skipta um kúrs og snúa mér að fjölgun ráðuneyta. Hv. þingmaður velti því upp hvort það ætti að fækka ráðuneytum. En hvað með að styrkja bara frekar þau ráðuneyti sem hafa verið í vandræðum undanfarin ár og áratugi í sínum verkefnum? Ég nefni hér til að mynda heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, það hefur strandað í langan tíma að bæta kjör þeirra sem eru með lágar tekjur í samfélaginu vegna þess að það á alltaf að fara í uppstokkun á almannatryggingakerfinu en það gerist aldrei neitt. Hefði kannski verið hægt að verja þessu fjármagni betur með því að styrkja þau ráðuneyti sem við höfum (Forseti hringir.) og gera það betur sem við vorum að gera?