152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sem allt í lagi að tala bara út frá pólitískum raunveruleika. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að á meðan þessi ríkisstjórn situr, með þá stefnu sem hún hefur, þá er ekki líklegt að þessi lausn sem ég og fleiri höfum verið að leggja til verði að veruleika í bráð. En það má þó alla vega vona. Síðan er annað sem ég myndi gjarnan vilja fá að nefna í þessu samhengi. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með hver þróunin verður á milli verðtryggðu lánanna og óverðtryggðu lánanna nú í framhaldinu þegar vextir eru að hækka, hvort fólk flýi þá aftur til baka úr óverðtryggðu lánunum yfir í verðtryggðu lánin. En ég er bara að segja að þegar við búum í svona óstöðugu umhverfi þá skiptir miklu meira máli hvernig menn tala, jafnvel þótt það séu að koma kosningar, en menn kannski gera sér grein fyrir. Að því leyti til er vandinn sem ég er að tala um að miklu leyti heimatilbúinn.