152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er alltaf gaman að fá nýja þingmenn hér inn með nýja sýn. Mig langaði að ræða aðeins um skipulag ráðuneyta. Hv. þingmaður talaði um að það væri verið að blása út kerfið og það væri mikill kostnaður, 1,7 milljarðar, við þessar breytingar. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mikið um að ekki eigi alltaf að setja meiri pening og meiri pening, heldur þurfi að ná fram skilvirkni. Gildir það kannski ekki um Stjórnarráðið sjálft? Hvað telur hv. þingmaður? Erum við kannski bara á algerlega rangri braut hvað það varðar að leyfa ríkisstjórnum að ráða því yfir höfuð hvaða ráðuneyti eru? Ættum við kannski bara að vera með einhver fá ráðuneyti? Veljum sex eða átta ráðuneyti og festum það bara í stjórnarskrá eða eitthvað þannig svo að það sé erfitt að breyta því. Þá er ekkert hringl. Þá veit starfsfólkið hvar það er að vinna, mætir ekki einn daginn og veit ekki hvort það er í þessu ráðuneyti eða því næsta. Þá er kannski hægt að passa að verkefnin séu jafnt dreifð á ráðuneytin þannig að við séum ekki með eitt ráðuneyti sem, eins og hv. þingmaður benti á, er kannski bara með einhverja 20 og eitthvað milljarða og annað sem er með um 200 eða 300 milljarða. Þurfum við ekki bara að fara að meitla þetta svolítið í stein, eða hvað finnst hv. þingmanni um það?