152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:47]
Horfa

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur kærlega fyrir andsvarið. Það er alveg hárrétt sem hún segir, þegar kemur að ríkisfjármálunum og útgjöldum ríkissjóðs fer ekki saman hljóð og mynd hjá ríkisstjórninni. Þau segjast, alla vega hæstv. fjármálaráðherra, vilja beita aðhaldi í ríkisfjármálum á sama tíma og t.d. skuldir ríkissjóðs, erlendar skuldir ríkissjóðs, eru látnar aukast verulega og til langs tíma með tilheyrandi vaxtakostnaði, sem kemur niður á svigrúmi okkar til að bregðast við og stuðla að og tryggja þá grunnþjónustu sem við eigum að veita. Og hér komum við að því sem ég held að hv. þingmaður og ég séum sammála um, sem er að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er alls ekki í samræmi við það sem hún ætti að vera. Ef markmiðið er að byggja upp hagsældarsamfélag þá erum við einfaldlega á rangri leið með því að t.d. blása út stjórnkerfið og draga úr þjónustu við þá sem mest þurfa á henni að halda. Ég tek sem dæmi að það finnst fjármagn til að fara í þessa uppstokkun. Það finnst ekki fjármagn til að gera sálfræðiþjónustu aðgengilega öllum, eins og Alþingi hefur þegar samþykkt í lögum og myndi sannarlega leiða til minni fjárútláta til lengri tíma þegar kemur að kostnaði ríkissjóðs vegna t.d. nýgengi örorku af andlegum ástæðum. Fólk hefur ekki efni á að leita sér sálfræðiþjónustu þegar það þarf helst á henni að halda. Staðan er sú að 22% fólks segjast þurfa á sálfræðiþjónustu að halda. Þriðjungur þess hóps (Forseti hringir.) telur sig ekki hafa efni á henni. Í ríku velferðarsamfélagi eru þessar tölur út úr kortinu.