152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[18:52]
Horfa

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur enn einu sinni fyrir gott andsvar. Varðandi það sem hún nefndi í fyrri hluta andsvars, um samning ríkisins við Rauða krossinn, þá er það fullkomið dæmi um ranga forgangsröðun fjárúthlutunar. Við vorum með hóp af sérfræðingum sem voru búnir að byggja upp ákveðið stofnanaminni og sérfræðiþekkingu á mjög sérhæfðu málasviði, gátu veitt þar gífurlega góða þjónustu og samþætt hana við önnur úrræði sem fólk sem leitar eftir alþjóðlegri vernd þarf á að halda, t.d. beint þeim til sálfræðinga. Það var hægt að treysta á að þar væru færir sérfræðingar að sinna málum sem veittu fólki þann tíma og þá virðingu sem málin krefjast. Aftur á móti blasir við fólki núna að það verður sett í einhvers konar lögfræðingalotterí þar sem tilviljun ein getur ráðið því hvort það fái einstakling til að sinna sér, sér til aðstoðar, sem hefur í það tíma eða þá sérfræðiþekkingu sem þarf. Og líklegt er að tilkostnaðurinn, byggður á tímarukkun sérfræðinga úti í bæ, verði talsvert meiri en af þeirri þjónustu sem veitt var áður á grundvelli samnings. Það sem skiptir enn meira máli er að vegna þessa er þarna komin aukahindrun. Það er ekki bara einn aðili sem fólk sem hingað kemur þarf að leita til, eða einn aðili sem stofnanirnar sem sjá um það, Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, hafa samband við, heldur heill hópur af fólki. Það er kominn aukahindrun (Forseti hringir.) sem verður til þess að mögulega munu færri nýta sér þjónustuna. Kannski liggur sparnaðurinn þar sem hæstv. dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) vildi ná út úr málaflokknum, að færri munu nýta sér lögfræðiaðstoð.

Ég biðst afsökunar á því að ég náði ekki að svara seinni spurningu hv. þingmanns.