152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, stundum er maður aðeins of duglegur að skrifa niður um hvað maður ætlar að fara í andsvör við við hv. þingmann að maður gleymir að biðja um að fá að fara í andsvör við hv. þingmann. En þá bara spyr maður hv. þingmann einhvern tímann seinna.

Forseti. Við erum hér að tala um nýtt skipulag fyrir Stjórnarráðið og hvernig það eigi að vera fjármagnað. Jú, þetta er ákveðin excel-leikfimi, verið að færa peninga á milli bókhaldslykla, ef við notum þá líkingu. En það sem ég sé einna helst sem vandamál við þetta er það verklag sem haft hefur verið við þetta allt saman, það að okkur er sagt: Það verða ný ráðuneyti. Svo tekur svolítinn tíma að koma með öll lög og annað til að segja hvernig það er. Á meðan erum við hér í þinginu að skoða fjárlög fyrir árið og við vitum í raun, þegar við erum að samþykkja þau fjárlög, að það er ekkert að marka þau af því að það á eftir að færa allt fram og til baka. Svona verklag skil ég hreinlega ekki. Af hverju er ekki hægt að bæta þetta og viðhafa virkilega fagmennsku í þessu þannig að þegar við tilkynnum breytingarnar þá sjáum við það svart á hvítu hvað þær þýða, ekki þremur mánuðum seinna, ekki fimm mánuðum seinna? Ég hef starfað hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem eru með hærri fjárlög, ef við eigum að kalla það það, en íslenska ríkið. Í hvert skipti sem þau tilkynntu um einhverjar breytingar, sem var nú reyndar eiginlega á hverju ári, þá var búið að færa allt þetta til og búið að sýna fram á þetta allt jafnt og þétt.

Við ræddum það mikið hér fyrir áramót hvort og hvernig og hversu oft Stjórnarráðið ætti að breytast. Við getum öll, sem höfum verið í stjórnun og rekstri, verið sammála um að við þurfum sem stjórnendur að hafa möguleika á því að endurhugsa hvernig við ætlum að gera hlutina og það eru til heilu fræðin um það hvernig það er gert. Ég nýtti ræðu hér fyrir áramót til að fara í gegnum hverjir væru helstu kostirnir og helstu hlutirnir sem þyrfti að hafa í huga. Það er alls ekki það, eins og var gert hér, að topparnir ákveði að við breytum einhverju heldur þarf að vera djúp hugsun og strategía bak við það af hverju verið er að breyta og hvernig. En ég get verið sammála leiðtoga ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, þegar hún sagði að hún vildi hafa möguleikann á því að breyta skipulaginu. Fínt, gerum það, hættum að rífast um það. En hvernig vinnum við það verkefni? Það þarf líka að vera fagmannlega gert en ekki bara hrist út úr erminni nokkrum mánuðum eftir á.

Það er nú einu sinni þannig að við erum með tækni sem leyfir okkur að gera ýmsar breytingar á frekar auðveldan máta og mér finnst í rauninni mjög skrýtið að það taki allan þennan tíma að breyta, færa þetta á milli, vegna þess að ég trúi því að þó svo að einhverjar samningaviðræður hafi eflaust verið um peninga og hvert þeir færu þá var það nokkuð ljóst, þegar búið var að segja að þessi verkefni hér færist frá þessu ráðuneyti yfir í þetta ráðuneyti, að við hljótum á sama tíma að taka það fé sem hefur verið eyrnamerkt þeim verkefnum og flytja það með. Ef ráðuneytið er ekki með nógu gott tól til að gera þetta þá væri um að gera að smíða svona „draga og sleppa“ þar sem hægt er að drag eitt verkefni yfir í annað ráðuneyti og svo reiknast þetta bara sjálfkrafa upp og prentar sniðug fjáraukalög.

Þetta er nefnilega dálítið dýpra en bara það hvað þetta er að taka langan tíma. Margir hv. þingmenn, sem hafa komið hér á undan mér, hafa nefnt að forsendur breytist. Það er nú einu sinni þannig að flest plön breytast áður en þau eru einu sinni fullkláruð og það er því mikilvægt að byggja upp plön og vinnubrögð þannig að hægt sé að takast á við breyttar forsendur og átta sig á því hvaða áhrif þessar breyttu forsendur hafa á plönin. Verðbólga þýtur upp. Hvað þýðir það fyrir plön okkar? Flóttamenn koma hér í þúsundatali. Hvað þýðir það fyrir plön okkar? Það er nefnilega ekki nóg að koma hér einhvern tímann í haust og segja: Já, heyrðu, verðbólgan var svo mikil að við þurftum að hækka þessar tölur um þetta og já, heyrðu, hingað komu flóttamenn, við þurfum að hækka allt eftir á. Þannig á þetta ekki að virka. Það eiga ekki að vera útgjöld á vegum ríkisins án þess að fyrir því liggi lög sem segja hvert þau eigi að fara.

Við lifum á tímum þar sem öll fyrirtæki sem eru jafnstór og íslenska Stjórnarráðið hafa fært sig yfir í það að allur reksturinn er gagnadrifinn. Það er hægt að sjá uppgjör jafnvel í rauntíma, í versta falli mánaðarlega, og mörg þeirra þurfa meira að segja, ef þau eru skráð á markað, að sýna fram á hvern einasta ársfjórðung. Þau þurfa að svara fyrir hvaða áhrif breyttu forsendurnar hafa. Hér koma hæstv. ráðherrar og segja: Já, þetta hérna er að gerast, þetta þarna er að gerast. Já, það er slæmt að verðbólgan — hún er nú ekki mér að kenna, hún er einhverjum öðrum að kenna, helst einhverjum úti í löndum að kenna eða stjórnarandstöðunni að kenna. En verðbólgan er hérna og við þurfum að segja: Hvaða áhrif hefur það?

En við erum ekki með rekstur sem er virkilega gagnadrifinn eins og allir aðrir eru að gera í heiminum í dag. Það kemur líka niður á starfi okkar sem erum hér innan húss á hinu háa Alþingi og ég ræddi það einmitt fyrir áramót hversu ólæsileg fjárlögin eru í raun. Það að reyna að átta sig á því hvert peningarnir fara og hvernig hlutir eru brotnir niður og svo hvaða áhrif allar tillögurnar um breytingarnar hafa — það er í raun bara merkilegt að við skulum yfir höfuð ná að koma út einhverju vegna þess að ég held að það séu fáir, kannski örfáir í fjárlaganefnd, sem eru nákvæmlega með það í kollinum hvernig þetta er allt saman að virka eða hvar tækifærin eru til að gera hluti.

Og þegar við hér á Alþingi eigum að vera að taka ákvarðanir um hluti, eins og t.d. þessi fjáraukalög sem við sjáum hér í dag, þá sjáum við ekkert hvert ákveðnir hlutir eru að fara. Við erum bara að tala um þetta á hæstu bókhaldslyklunum, liggur við. Við áttum okkur ekki á því að kannski er verið að færa fullt af hlutum til, skera niður fullt í einhverjum hlutum án þess að við áttum okkur á því vegna þess að við sjáum það ekki í þeim heildartölum sem okkur eru gefnar í fjáraukalögunum.

Það þarf virkilega að bæta vinnubrögðin innan fjármálaráðuneytisins um hvernig þessar breytingar eru teknar, hvaða áhrif breyttar forsendur hafa, koma með nýjar tillögur, breyta hlutum. Það þarf að bæta úr því þar en það þarf líka að bæta úr því hér innan þingsins. Það að fá útprentaðar svona þykkar bækur með tölum og endalausum excel-útprentunum er ekki fyrir neinn að skilja eða átta sig á hvað verið er að gera. Maður þarf að sitja og rekja, hoppa frá einni síðu yfir í aðra, úr einu fylgiskjali yfir í annað, til að átta sig á þessu. Þarna eru sannarlega tækifæri á því að gera stafræna umbyltingu í því hvernig við vinnum með fjárlög og hvernig við vinnum með það hvert peningarnir sem við höfum sem tekjur eru að fara. Ég held að það sé samvinna sem allir flokkar á Alþingi gætu einbeitt sér að, að gera þetta þannig að hlutirnir verði læsilegri og auðveldari og hengja þá líka við það skýringarnar.

Þá langar mig að tala um það sem hv. þingmaður ræddi hér áðan, um Garðyrkjuskólann, að geta t.d. séð fjármagnið sem fór þangað, fyrir hvað það er, og geta alltaf farið dýpra og áttað sig á því hvernig ætlast er til þess að reka þennan garðyrkjuskóla, hvaða fjármagn fór hvert o.s.frv. Það er algjörlega ómögulegt í öllu því sem við fáum aðgang að. Ég segi bara: Ef mér hefði einhvern tíma dottið í hug að vilja verða forstöðumaður opinberrar stofnunar — ég myndi ekki vilja þurfa að skilja hvað ríkið segir mér að ég fái, það er orðið ansi flókið.

Við getum horft á þau fjáraukalög sem nú eru. Við erum að eyða hér tíma í að skoða þau, fara yfir þau, passa að þau séu í lagi, passa að ekki sé verið að gera einhverjar breytingar, skera niður á einhverjum sviðum án þess að við uppgötvum það. En svo þarf í raun að koma strax daginn eftir að við samþykkjum þetta með ný fjáraukalög, vegna þess að stór hluti þeirra forsendna sem voru fyrir því sem við samþykktum fyrir einungis tæpum fjórum mánuðum er brostinn. Við getum ekki verið með höfuðið ofan í sandinum og sagt: Það er ekkert að breytast. Það er krafa okkar hér á þingi og krafa frá fólkinu að við séum að takast á við þessa hluti. Við þurfum svo sannarlega að bæta það hvernig við vinnum og hvernig við förum með þessi fjármál og það fjármagn sem ríkið hefur yfir að ráða.