152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:16]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, ágætishugvekju. Mig langar aðeins að velta upp þessari stöðu varðandi yfirfærslu og breytingar á ráðuneytunum. Mikil vinna var lögð í lög um opinber fjármál, fyrirsjáanleika, plön lögð fram á réttum tíma. Nú stöndum við frammi fyrir því að hellingur af verkefnum situr fastur vegna þessarar yfirfærslu, alls konar vandamál hafa fylgt þessu, tafir. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hafi verið óábyrgt að fara svona hratt í slíkar breytingar, sérstaklega í ljósi þess að við vorum að koma út úr mjög viðkvæmri stöðu eftir Covid. Hvort stjórnvöld hafi verið of fljót á sér, talið sig geta horft mjög hratt fram hjá þeim aðstæðum sem við vorum að koma út úr, í staðinn fyrir að fara bara í uppbyggingarstarf eftir Covid. Ég velti fyrir mér hvort þetta taki ekki svo langan tíma vegna þess að það var nákvæmlega enginn aðdragandi að þessu verkefni. Fólk í ráðuneytunum vissi ekki að þetta væri að koma. Þetta er ekki afleiðing af stefnumótunarvinnu sem átti sér stað á þessu tímabili.

Ég velti því líka fyrir mér hvort kannski hefði mátt nýta árið 2022 í að undirbúa þetta verkefni. Ef fólk gat sammælst um að þetta væri mikilvægt, af hverju lá þá svona á að skipa nýja ráðherra strax? Þetta hefði ekki þurft að gerast eftir nokkrar vikur. Við sjáum nú þegar að það er búið að fresta til að mynda að deila ákveðnum ráðuneytum milli eins flokks og viðkomandi veit af því að hann tekur við eftir 18 mánuði. Af hverju hefði ekki mátt gera þetta í öðrum ráðuneytum? Mig langaði að varpa þessum hugleiðingum upp. Mætti ekki leiða að því líkur, hv. þingmaður, að hér á þinginu hefðu e.t.v. fundist einhverjar fjárheimildir fyrir slíkri undirbúningsvinnu, að þingið hefði kannski alveg verið til í að horfa á eftir því að eitthvað smávegis fé hefði farið í grunnstefnumótunarvinnu, sem hefði tekið aðeins lengri tíma, og við værum ekki að eiga við svona gríðarlegar tafir í kerfinu?