152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er nefnilega þannig, eins og hv. þingmaður bendir á, að það borgar sig að vinna undirbúningsvinnuna. Við töluðum einmitt mikið um það hér fyrir áramót að það þurfi að gera þetta í réttum skrefum. Það þarf að vinna með starfsfólkinu, það er eitt af grunnatriðunum sem allir sérfræðingar í því að gera umbreytingar innan kerfa segja: Það þarf að vinna þetta með fólkinu, ekki „top down“, afsakið, frú forseti, ekki frá toppnum og niður, heldur þarf að vinna þetta hægt og rólega. Við vitum öll að hið opinbera er nú ekki það fljótasta í því að gera hlutina. Það er ekki þekkt fyrir að snúa skipinu við á einni nóttu, þaðan af síður að gera allar þessar breytingar. Og já, þetta hefur haft skelfileg áhrif í mörgum ráðuneytum vegna þess að fyrst þurfti fólkið að átta sig á því hvar það væri, hvert nýtt hlutverk þess væri, hver nýr yfirmaður þess væri. Og eflaust eru sum ráðuneytin enn að reyna að komast af stað í rétta átt með hlutina þrátt fyrir að 1. febrúar hafi allt saman byrjað samkvæmt nýju skipuriti. En það virtist skipta meira máli að koma inn ráðherrum og ráðherrastólum. Ég spyr mig: Hefði ekki verið hægt að taka eitthvað af þessum stóru ráðuneytum og hafa tvo ráðherra þar í smátíma meðan verið var að spá í þetta?