152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eins og ég benti á í ræðu minni áðan þá er ég ekki endilega sá sem er með mestu hagfræðiþekkinguna eða skilninginn á því hvernig þessir hlutir gerast. En nú horfi ég aðeins aftur í tímann, ég veit að hv. þingmaður fylgdist vel með hlutum áður en hann settist á þing, og mig langar að taka eitt dæmi. Hér á þingi voru sett fjáraukalög í tengslum við það að takast á við Covid og núna hafa komið fram upplýsingar um að um 11 milljarðar hafi verið greiddir fyrir það að taka Covid-próf. 11 milljarðar er engin smáupphæð. Hún er rúmlega milljarði hærri en það sem við ætlum að setja í þróunaraðstoð á þessu ári. Mér er spurn varðandi verklagsreglurnar: Var bara hægt hjá ríkisstjórninni að segja að það væri opinn tékki fyrir prófum? Svo kemur allt í einu 11 milljarða kr. reikningur, útgjöld sem voru kannski ekki í fjárlögum, voru kannski ekki í fjáraukalögum, komu kannski bara á allra síðasta degi þegar fjáraukinn var að koma. Er þetta eitthvert eftirlit? Er þetta eitthvert aðhald? Erum við að stýra hlutunum á réttan máta (Forseti hringir.) þegar hægt er að hafa alla þróunarsamvinnu Íslands í einum bókhaldslykli?