152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:47]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var skarplega athugað hjá hv. þingmanni. Við vorum að rifja það upp áðan að frá því að heimsfaraldurinn hófst hafa verið lögð fram a.m.k. fimm, sex, sjö fjáraukalagafrumvörp og nú þetta hérna. Það er ekkert að ástæðulausu sem fjáraukalagafrumvörp eru lögð fram. En það er ekki bara gert eftir á. Það byggir á ákveðnu mati á því hvað aðgerðir sem er ráðist í kosta og svo er kannski tekið tillit til þess í næsta fjáraukalagafrumvarpi þar á eftir ef tekjur eða útgjöld fara langt fram úr áætlun. Það að hæstv. fjármálaráðherra komi hér upp og segi að engin þörf sé á því að leggja fram ný fjáraukalagafrumvörp vegna hugsanlegra mótvægisaðgerða fyrir heimili o.s.frv. staðfestir náttúrlega að það stendur ekki til að gera neitt í því. Annars væru svoleiðis frumvörp í bígerð og byggðu á einhverjum áætlunum um það hvað hugsanlegar aðgerðir myndu kosta. Við getum tekið hlutabótaleiðina sem dæmi. Hún kom hingað inn í þingið sem algjört smælki í upphafi faraldurs í mars 2020. Þá kom það í hlut velferðarnefndar, undir forystu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, að laga það frumvarp og gera þetta almennilega, breyta þessu í raunverulegt björgunarnet fyrir launafólk í faraldri, launafólk og fyrirtæki í sjálfu sér, halda uppi eftirspurn í samfélaginu og verja fólk og fyrirtæki fyrir þessum gríðarlega framleiðsluslaka og efnahagsskelli. (Forseti hringir.) Á endanum urðu þetta, ég man ekki, 20 milljarðar á ári eða eitthvað slíkt, jafnvel miklu meira, það er kannski einhver annar sem man tölurnar betur en ég, en þetta er bara dæmi.