152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[19:49]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur og hv. þingmaður sem hér hefur talað, og ég vil byrja á því að þakka honum fyrir hans innlegg í þetta mál, erum nýir á þingi, á ólíkum aldri og komum kannski hvor úr sínum jarðveginum en erum auðvitað núna komnir í þann veruleika sem er á Alþingi. Ég verð nú bara að segja fyrir sjálfan mig, og mig langar að vita hvort ég deili þeirri upplifun með hv. þingmanni, að vinnulagið á Alþingi kemur mér á óvart. Við erum auðvitað að ræða hér fjáraukalög, ekki fjárauka í raun heldur tilfærslu, en maður upplifir það einhvern veginn þannig að maður tali bara út í tómið. Maður stendur hér og telur sig vera að fara í samtal um pólitík, sem er ekki pólitík heldur eru hlutirnir ákveðnir einhvers staðar annars staðar og það verður ekki samtal í salnum um nokkurn skapaðan hlut. Ég hef setið í fjögur kjörtímabil í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og þá sitja bæjarfulltrúarnir á bæjarstjórnarfundum, bæði meiri hluti og minni hluti, og þurfa að takast á um málefnin eða fallast í faðma og keyra mál í gegn í góðri sátt. En hér virðist samtalið ekki eiga sér stað. Er ekki ankannalegt að upplifa þetta?