152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:54]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hérna er hv. þingmaður að tala um þessa 87. gr. og mögulega beitingu heimildarákvæðis sem felst í henni og það liggur ekkert fyrir um beitingu þeirrar greinar eða þörf á henni eins og stendur í dag á íslenskum fjarskiptamarkaði, heldur er þetta mikilvægt fyrir ráðherra í takti við þjóðaröryggi að hafa þessa heimild ef upp koma einhverjar slíkar aðstæður. Það krefst verulegrar afmörkunar og mjög skýrs rökstuðnings hvaða hlutar fjarskiptaneta, mögulega í heild sinni eða bara í ákveðnu hlutfalli, teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og þjóðaröryggis ef eitthvað kemur upp sem þarfnast þess að láta skoða það. Þannig að hér er einungis um að ræða heimild sem mun að óbreyttu ekki hafa áhrif sem stendur nema eitthvað komi upp en er talið afar mikilvægt að hafa vegna þess að umræðan um 5G snýst ekki bara um fjarskiptamál heldur traust og varnarmál.