152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:21]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Þegar reglugerð er á leiðinni, er ekki komin og vaknað hafa upp spurningar um réttmæti ákvæða á borð við þetta, og beinlínis fallið dómar um að þetta stríði gegn réttindum borgaranna, þá velti ég tvennu fyrir mér. Í fyrsta lagi: Þegar vafi leikur á því hvort eitthvað stríði gegn mannréttindum borgaranna eða ekki er ekki réttara að geyma það, bíða með það þar til annað kemur í ljós fremur en að fara á hinn veginn sem er að halda því til streitu þangað til annað kemur í ljós? Er það ekki meira í samræmi við grundvallargildi okkar og grundvallarlöggjöf að láta mannréttindi borgaranna og frelsi þeirra njóta vafans? Það er kannski mín mótspurning til hæstv. ráðherra.

Í öðru lagi: Erlend tölfræði sýnir mjög glöggt — úr því að hæstv. ráðherra nefnir hér að um mikilvæg gögn sé að ræða við rannsókn sakamála — að þessi gögn, líkt og ég minntist á í ræðu minni, eru ekki raunverulega gagnleg. Þau eru hvorki þörf né leiða þau til þess að mál séu frekar upplýst og því síður að endilega sé um að ræða mál sem varða jafn mikilvæga hagsmuni og þá að vernda einkalíf fólks. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem ég hef ekki fundið það, hvort til séu einhverjar upplýsingar, einhver gögn eða tölfræði um nýtingu þessara gagna á Íslandi og gagnsemi þeirra sem réttlæta það að við höldum slíku ákvæði inni í okkar lögum áður en búið er að skera almennilega úr um það hvernig best sé að haga þessu.