152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hæstv. hv. þingmaður hafi ekki misskilið mig. Það sem ég átti erfitt með að sjá er hvort það eru brotin mannréttindi hérna út frá Evrópureglunum. Hv. þingmaður notar hugtakið gagnageymd. Ég fór strax og fletti því upp hvort hugtakið er í frumvarpinu en ég sá það ekki. Ég veit að þetta eru lög um fjarskipti en í persónuverndarlögunum og allt varðandi upplýsingabyltinguna — um leið og hv. þingmaður og hæstv. ráðherra er í símanum sínum og á netinu þá er hann yfirleitt ekki kúnninn. Hann er mjög oft varan í þeim forritum sem hann er að nota. Windows 10 var gefið út ókeypis til einstaklinga og það var af því að einstaklingurinn var varan. Það sama þegar þú ferð á Facebook, kúnninn hjá Facebook er auglýsendur, ekki einstaklingarnir, þar fá þeir peningana, þar er tekjuinnstreymi. Varan er einstaklingurinn og öll löggjöf Evrópusambandsins, GDPR, persónuverndarlöggjöfin, miðast að því að vernda mannréttindi, friðhelgi einkalífsins. Ég sé að það er ákvæði hérna um geymslu á gögnum, gagnageymd, sem ég tek fram að er mjög gott hugtak og væri mjög gott að hafa í lögunum, en það sem ég ströggla við að sjá er hvort 89. gr., um gögn um fjarskipti, brjóti á mannréttindum einstaklingsins út frá persónuverndarlöggjöfinni, sem er mjög öflug. Þetta er alþjóðleg staðall í heiminum. Yfirleitt þegar þú notar ákveðin forrit á Íslandi, Google Analytics, Windows, þá eru gögnin yfirleitt geymd í Bandaríkjunum, mjög oft, ekki á Írlandi, í vöruhúsunum þar eða fer í skýin. Evrópudómstóllinn hefur sagt að Bandaríkjamenn væru að brjóta á mannréttindum Evrópubúa, út af Snowden-málinu, út af NSA og því að þeir voru að fara að gramsa í þessum persónuupplýsingum. En Evrópa hefur staðið styrkum fótum hvað þetta varðar og samdi aftur við Bandaríkin í svokölluðu „Privacy Shield“-máli. En þegar ég sé Evrópulöggjöf (Forseti hringir.) á þessu sviði þá geri ég ráð fyrir að það sé horft út frá vernd einstaklingsins, (Forseti hringir.) friðhelgi einkalífsins. Það er þannig sem ég skoða það. Og mannréttindin tel ég vera varin. Það væri mjög fróðlegt að sjá (Forseti hringir.) — ég kannski náði ekki öllu sem hv. þingmaður sagði — hvar er brotið á einstaklingum í þessum ákvæðum.