152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:14]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur þessa fyrirspurn um Grímseyjarferju. Spurt er hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að hún verði endurnýjuð. Þá er það auðvitað svo, eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á síðar í sínu máli, að við erum blessunarlega búin að endurnýja með orkuskiptum Herjólf sem var sérstök ákvörðun sem þurfti að taka á síðasta kjörtímabili. Blessunarlega gerðum við það og settum fjármuni í það þannig að við erum búin með þá ferju sem er kannski svona stærst og mestur þungi á.

Það er aðkallandi að endurnýja Breiðafjarðarferjuna Baldur, sama gildir um Grímseyjarferjuna. Gamalt og lélegt skip, sagði hv. þingmaður. Ég held að það sé rétt og hefur alltaf verið það, hef ég heyrt, ég er nýlega búinn að hitta þar heimamenn sem voru með fínar hugmyndir og óskir. Svarið er auðvitað já, ráðherra mun beita sér fyrir því, og svo Hrísey þar til viðbótar. Forgangsröðun endurnýjunar á ferjum hér við land, þar á meðal Grímseyjarferju, verður unnin samhliða vinnu við næstu samgönguáætlun og stefnt að því að tillaga að nýrri samgönguáætlun til 15 ára með fimm ára aðgerðaáætlun verði lögð fyrir Alþingi næsta haust en undirbúningur að hvítbók eða stefnuskjali stendur nú yfir, grænbókin var kláruð síðastliðið sumar.

Í samræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður stefnt að því að nýjar ferjur verði knúnar öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Þess vegna mun ráðherra að sjálfsögðu beita sér fyrir því að ferjur á þessum skilgreindu ferjuleiðum verði endurnýjaðar í ljósi þeirra markmiða. Það verður unnið með þessa samþykktu forgangsröðun í því. Það verður að segjast eins og er að þarna gæti komið til greina að vera kannski með nýjan orkugjafa eins og ammoníum, ammoníak. Til þess þarf auðvitað að framleiða það. Það er hluti af nýtingu hinna grænu lausna, fara í grænan iðnað, virkja til að framleiða nýja orku sem við getum notað á skip, hugsanlega flugvélar og þyngri vélar og forsenda fyrir því að við getum gert það. Það verður erfitt að vera, held ég, á rafmagnsskipi á svona langri leið, það verður líka erfitt að hlaða í Grímsey en allt er hægt. En fyrst og fremst þurfum við að leita leiða til að fara í þetta.

Allt kostar þetta hins vegar talsverða fjármuni. Við verðum þar af leiðandi að vera tilbúin til að forgangsraða þeim hér í þessum sal og segi ég þetta nú hér við hv. þingmann af því að tvær ferjur eru í kjördæmi hv. þingmanns. Þar eru líka ýmsir vegir og ég sá að nýlega var hv. þingmaður ásamt öðrum þingmanni að leggja fram þingsályktunartillögu um að forgangsraða öðrum vegi hraðar og við þurfum þá að fá fjármuni, bæði í Suðurfjarðaveginn, sem ég er til í að fá sem fyrst, og í þessar ferjur sem og alla aðra vegi sem við höfum verið að forgangsraða í. Ég mun glaður taka við þeim fjármunum og setja í hraðari orkuskipti í ferjum, glaður, en ég framleiði ekki peningana, þeir koma héðan.