152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[15:45]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er stundum svolítið erfitt að finna í svona þykku frumvarpi hvað maður ætlar að spyrja um. Ég hjó eftir því hjá hv. þingmanni að hann talaði um reynslu sína af því að aðstoða ættingja eða vini við það að átta sig á því hvað væri verið að rukka fyrir og að það hefði verið tvírukkun fyrir sömu hlutina. Þetta er nokkuð sem ég kannast við úr umræðunni frá því að ég var búsettur í Bandaríkjunum þar sem fjarskiptafyrirtæki voru hreint og klárt neydd til þess að hafa mun meira gagnsæi í því hvernig var rukkað og fyrir hvað. Það kom í ljós hjá flestum notendum þegar þeir fengu þessa nýju reikninga sem voru gagnsærri að það var verið að rukka fyrir fullt af hlutum sem þeir höfðu aldrei beðið um. 74. gr. fjallar um reikninga o.fl. Telur þingmaðurinn hana nógu sterka til þess að hún sé gagnsæ eða þarf að gera fleira?