152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[15:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að tala betur síðar í þessu máli en ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd og mér er mjög ofarlega í huga þetta Mílufrumvarp sem við fengum fram hérna á sínum tíma þar sem við vorum einmitt að velta því fyrir okkur: Hvers vegna var heildarfrumvarpið ekki bara lagt fram? Ég er upptekin af því á þeim tímum sem við lifum núna og erum að upplifa núna að Norðurlöndin hafa þá þegar heildarlöggjöf. Við vitum að Atlantshafsbandalagið hefur ályktað um að það felist alvarleg öryggisáhætta í því að samfélagið sé háð fjarskiptanetum, að aðildarríki verði að tryggja að mikilvægir innviðir þoli áföll, þoli öryggisógn. Mig langaði bara til að biðja hv. þingmann að varpa aðeins ljósi á það hver vinnan var við þetta mál í nefndinni á sínum tíma vegna þess að mér sýnist sem svo að hér sé fram komin fullþroskað frumvarp. Hvernig má það vera að þetta hafi ekki verið ofar á forgangslista ríkisstjórnarinnar, þótt ég ætli honum ekki að svara fyrir ríkisstjórnina í þeim efnum?