152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að vera lausnamiðuð hérna því að það er búið að vera að spyrja, með réttu, um hvernig stendur á því að stjórnarliðar, allt frá ráðherra og niður í stjórnarþingmenn, hafa ekki áhuga á þessu mikilvæga máli sem varðar m.a. gríðarlega öryggishagsmuni Íslands. Ég velti því fyrir mér hvort það megi tengja þetta við mjög sérkennilega orðræðu sem hefur heyrst úr þessum sama ranni, úr öllum stjórnarflokkunum, að það sé eitthvað neikvætt og popúlískt við það að ræða öryggismál Íslands, öryggissamstarf Íslands, af því að það er stríð. Ég næ ekki utan um þessa orðræðu. Ég hefði haldið að það væri akkúrat öfugt en þetta er það sem heyrist úr þeirra röðum og þá ekki síst í ljósi máls okkar sem varðar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Getur ekki verið bara að stjórnarliðar séu feimnir (Forseti hringir.) að koma inn í salinn og ræða öryggismál af því að úti í heimi er stríð, að það sé (Forseti hringir.) einhver misskilningur í gangi um að við eigum ekki að vera að ræða öryggismál af því að það er ófriður? Ég legg þetta á borðið.