152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er eðlilegt að við bendum á fjarveru stjórnarliða frá þessari umræðu í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru undir. Hv. þingmenn hafa nefnt marga þeirra og mig langar að bæta einum við vegna þess að hv. þm. Bergþór Ólason fór yfir 87. gr. frumvarpsins sem inniheldur ákveðin álitaefni sem hægt er að ná utan um. Mig langar að benda á 89. gr. en í 3. mgr. þeirrar greinar er alveg ofboðslega víðtæk heimild eða skylda fyrir fjarskiptafyrirtæki að halda utan um allar upplýsingar um fjarskiptanotkun allra Íslendinga í alla vega sex mánuði. Sambærileg heimild var sett inn í Evrópureglur á sínum tíma en felld úr gildi vegna þess að hún þótti ganga of nærri friðhelgi einkalífs fólks og persónuvernd. Hún er enn í gildi hér. Hæstv. ráðherra var spurð út í þetta fyrir helgi og það var ekki annað að heyra á henni en að þetta ætti bara að fá að standa vegna þess að löggunni þætti svo þægilegt að geta gengið að þessum upplýsingum vísum. Þó það nú væri, lögreglunni finnst alltaf þægilegt að geta fengið eins miklar upplýsingar og hægt er. En það er okkar hlutverk hér að standa vörð um friðhelgi borgaranna, friðhelgi einkalífs almennings gagnvart stjórnvöldum. Það eru frelsisflokkar í ríkisstjórn, skilst manni, sem gætu tekið á þessu. Þeir skila auðu.