152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að það er ánægjulegt að fá hæstv. ráðherra í salinn til að taka þátt í umræðum um þetta mál en það er auðvitað athyglisvert að það er ekki einn stjórnarþingmaður á mælendaskrá um þetta mál. Mér skildist að óþolinmæði stjórnarliða gagnvart okkur hér í stjórnarandstöðu væri mikil vegna þess að fólki lægi svo mikið á að byrja að ræða fjarskiptamálið. En svo þegar það er komið á dagskrá eru samt enn þá bara við að ræða fjarskiptamálið, þetta stjórnarmál. Ég segi bara eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn í þessari umræðu? Hvar eru stjórnarliðar að undanskildum hæstv. ráðherra sem ég hef nú þegar boðið velkomna í salinn? Ég velti því fyrir mér vegna þess að ég hefði einmitt haldið að þetta væri mál sem væri mikilvægt að ræða í þaula út af stöðunni í heimsmálum og út af þeim mörgu álitaefnum sem varða persónuvernd og réttindi borgaranna sem er að finna í þessum lögum.