152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti ekki við hvort hér væri fram komið frumvarp sem væri berstrípað pólitík, það var ekki spurningin, heldur hvort þingmaður deildi þeim skoðunum með mér að það væri fullþroskað í þeirri merkingu að nokkuð vel væri að þessu staðið. Ég spyr vegna þess að það er mér mikil ráðgáta að þetta heildarfrumvarp hafi ekki fengið afgreiðslu fyrr, að það hafi ekki verið ofar á forgangslista ríkisstjórnarflokkanna þriggja sjálfra.

En af því að hv. þingmaður nefndi þetta með lögregluna var það til umræðu og hefur verið til umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að varnaglarnir eigi að vera þeir að lögregla eigi alltaf að leita atbeina dómstóla til að fá þessi gögn og síðan sé síðari girðingin sú að það séu skýr skilyrði um eyðingu gagnanna. Svo vitum við hver veruleiki lögreglunnar er í dag með skipulagða brotastarfsemi og mannþunga. Það er því kannski ekki alveg augljóst hvert tímamarkið er á því hversu lengi lögreglan má hafa aðgengi að þessum gögnum, það er vitaskuld alltaf í einhverjum mánuðum talið en það má ekki svipta lögregluna alveg tækifærum til að fullvinna rannsóknir sínar.