152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:45]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hér upp aðeins að leiðrétta sumt hjá hv. þingmanni varðandi þessa 89. gr. Það er mikilvægt að halda því til haga að það er skýr munur á fjarskiptaleynd og fjarskiptaumferð á upplýsingum, sem er í sitthvorri greininni. Hér er einfaldlega verið að tala um gögn á milli aðila en ekki það sem fram fer í efni símtala eða skilaboða eða slíku. Hvað varðar 3. mgr. sem hv. þingmaður vísar til, varðandi skráningu gagna um fjarskiptaumferð í sex mánuði, þá vegast þarna auðvitað réttilega á almannahagsmunir og persónuverndarsjónarmið. Ákvæðið sem er óbreytt kom inn áður, af því að hér er vísað til þessara tilmæla sem koma að utan, og við bíðum enn þá eftir nýrri reglugerð um persónuvernd. Það má geta þess að upphaflegt frumvarp, sem kom fram 2005, gerði ráð fyrir því að það væri eitt ár en niðurstaða löggjafans, að teknu tilliti til athugasemda Persónuverndar við þetta ákvæði, var einmitt sjónarmið um meðalhóf og miða skyldi við sex mánuði. Þarna vegast auðvitað á þessir hagsmunir. Á sama tíma er hér margoft vísað í dóm þar sem verið er að ræða tilskipun — þetta ákvæði kom inn á undan því, svo ég ítreki það — og einn af annmörkunum á tilskipuninni var talinn vera í þessum dómi að ekki væri gætt að meðalhófi og þá var heimilað að hafa allt að 24 mánaða varðveislutíma, en hér er verið að tala um sex mánuði. Dómstóllinn gagnrýndi líka í öðru lagi að það var ekki gerð skýr krafa um eyðingu gagna, eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir kom inn á áðan, að loknum varðveislutíma en þetta frumvarp og ákvæðið sem nú er gerir alveg skýlausa kröfu um slíkt. Í þriðja lagi var talinn sá annmarki á tilskipuninni sem Evrópudómstóllinn ógilti, eins og þingmaðurinn fór margoft yfir hér, að ekki væri gerð krafa um að aðgengi væri háð dómsúrskurði. Hér er skýr krafa um að úrskurð dómara þurfi til. Þetta taldi dómurinn (Forseti hringir.) þrjá aðalannmarkana og þetta ákvæði er bara öðruvísi en tilskipunin og svarar sérstaklega þessum áherslum. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu verður þetta rætt í þinginu og núna í nefndinni en ég minni á að það er væntanleg ný EES-gerð um persónuvernd í fjarskiptum.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða ræðutíma. )