152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka það sem ráðherra kallað leiðréttingu en ég heyri ekki betur en að sé bara endurtekning á ýmsu sem ég sagði. Það sem kannski vantaði í mína ræðu er það sem ráðherrann nefnir, að nefna einmitt sérstaklega að þetta kemur inn í íslenska lagasafnið 2005. Það er rosalega langur tími síðan, bæði hvað varðar þróun fjarskipta og hvað þróun persónuverndar áhrærir. Þar munar kannski ekki minnst um í þessu samhengi þennan dóm sem féll 2014 úti í Evrópu yfir systurtilskipun þessa ákvæðis. Jú, meðalhófið kann að hafa tekið mið af því að varðveislutími var heimilaður að allt að 24 mánuðum en þetta voru mörk í tilskipuninni. Þetta voru sex til 23 mánuðir. Við þurfum greinilega að skoða það í umhverfis- og samgöngunefnd hvort neðri mörkin hafi ekki verið sama annmarka háð. Ráðherra telur upp nokkur atriði sem bent hafi verið á í dómnum en þau voru svo sem fleiri, t.d. bara það grunnatriði að dómstóllinn taldi ekki eðlilegt að láta svona ákvæði ná til alls almennings og allra tegunda fjarskipta. Þetta er allt of víðtæk heimild. Það sem dómurinn bendir líka á er að það skorti á að útfærðar séu nægjanlegar ráðstafanir fyrir vernd upplýsinga til að koma í veg fyrir misnotkun þeirra. Þetta ættu menn að hugsa sérstaklega vel um þegar þjóðaröryggisumræðan hefur náð ákveðnum þroska frá því sem var árið 2005. (Forseti hringir.) Það að fjarskiptafyrirtækin sitji á öllum þessum upplýsingum getur verið stórhættulegt.