152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:50]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara mjög mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari yfir þetta og skoði muninn á margtilvitnaðri tilskipun og því ákvæði sem hér liggur fyrir, einnig þeim annmörkum sem sérstaklega eru reifaðir í dómnum og því sem er mismunandi milli tilskipunarinnar og þess sem fyrir liggur í frumvarpinu. Við erum með mjög ítarlegar kröfur í lögum og í almennu persónuverndarreglugerðinni um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem fjarskiptafyrirtækjum m.a. ber að starfa eftir. Við framlagningu persónuverndarfrumvarpsins voru lagðar til breytingar á gildandi fjarskiptalögum líka árið 2018 en ekki ákvæði þeirra er varðar geymslu upplýsinga um fjarskiptaumferð þar sem talið var að þar hefði verið litið til meðalhófs þar sem vegast á þessir margumtöluðu hagsmunir, almannahagsmunir og réttur einstaklinga til persónuverndar sem þarf auðvitað að skoða. En það er rétt að halda því til haga af hverju þetta ákvæði er inni. Þetta hefur verið gagnrýnt, (Forseti hringir.) mat lögreglustjóra og annarra hefur verið kannski að hafa þetta lengra, sumir hafa viljað stytta þennan tíma enn frekar. (Forseti hringir.) Við þurfum auðvitað að athuga hvað við erum að vernda. Við erum að vernda fyrir mögulega stórum netglæpum gagnvart innviðum okkar. (Forseti hringir.) Við erum að tala um skipulagða glæpastarfsemi og annað og þurfum því að huga að breyttu umhverfi því samhliða.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á að ræðutími er ein mínúta í andsvari. )