152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:57]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tek undir að þetta mætti vera skýrara og betur útskýrt í greinargerð. Auðvitað hlýtur tilgangur svona ákvæðis alltaf að vera að tryggja að skilmálar og verklag fjarskiptafyrirtækja við uppsögn samninga hindri ekki flutning neytenda á milli fyrirtækja og standi ekki virkri samkeppni fyrir þrifum. Núna hafa t.d. Neytendasamtökin bent á það að skammur hámarksbinditími sé einmitt vel til þess fallinn að halda svona fjarskiptafyrirtækjum á tánum og veiti þannig neytendum ákveðið aukið svigrúm og frelsi til að elta hagkvæmustu leiðirnar hverju sinni. Svo já, ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða, hvort það sé kannski réttast að við höldum okkur bara við þennan sex mánaða hámarksbinditíma. (Forseti hringir.) Og kannski af því að ég er í andsvari: Er hv. þingmanni kunnugt um að það séu einhver sérstök rök (Forseti hringir.) sem hnígi að því að lengja þennan tíma? Hefur hv. þingmaður heyrt slík rök?