152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[16:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski best að vísa bara í rökin í greinargerðinni:

„Með hliðsjón af breyttum samkeppnisaðstæðum er þó lagt til að hámarksbinditími verði lengdur í 12 mánuði. Aukið svigrúm í þessum efnum getur orðið neytendum í hag með tilliti til vöru-/þjónustuframboðs og verðlagningar.“

Ég veit ekki, er það þannig sem við skilgreinum endilega aukið svigrúm? Hvers svigrúm er það? Ég myndi segja að lengri binditími, það að binda neytanda í lengri samningum við þjónustuveitanda, gefi kannski aukið svigrúm fyrir þjónustuveitendurna en ekki fyrir neytendurna. Það er þess vegna sem mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá þetta voru einmitt að þarna væri verið að breyta í vitlausa átt, að svigrúmið ætti einmitt að vera að neytendur gætu verið aðgangsharðir gagnvart þjónustuveitendum til þess að þjónustan sé sem best og veitt (Forseti hringir.) á sem hagstæðustu verði. En það kemur kannski (Forseti hringir.) eitthvað annað út þegar við fáum einhverja greiningu á þessu.