152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu. Þar var komið inn á ýmsa hluti sem vöktu athygli mína. Eins og hv. þingmaður ræddi snýst þetta auðvitað fyrst og fremst um öryggi, öryggi þjóðarinnar heima við og á ferðum sínum. Í frumvarpinu er kafli sem lýtur að neyðarsamskiptum, neyðar- og öryggisfjarskiptum og fjarskiptum á hættutímum, sem eru ákvæði 95.–100. gr. Þau fjalla í rauninni um þau númer sem við notumst við þegar neyð steðjar að. Hér er tilgreint númerið 112 sem við þekkjum svo vel. Við vonumst auðvitað sjálf til að þurfa sem sjaldnast að hringja í Neyðarlínuna en hún er algerlega nauðsynleg.

Ég kem í rauninni upp í mínu fyrra andsvari til að spyrja hv. þingmann, sem hefur mjög mikla reynslu úr umhverfi sakamála sem fyrrverandi saksóknari, hvaða máli hún telji skipta að sett sé í lög að fjarskiptafyrirtækjum sé með öllu óheimilt að gjaldfæra símtöl sem berast til 112 og jafnframt að það sé hafið yfir allan vafa að fjarskiptafyrirtækjum sé skylt að flytja símtalið (Forseti hringir.) og fjarskiptaumferðarupplýsingar og aðrar upplýsingar, að það megi veita (Forseti hringir.) móttakandanum, 112, upplýsingar um símanúmerið og þann sem hringir og hvar hann er staðsettur.