152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir spurninguna. Ég tel að þetta sé mikilvægt. Það blasir auðvitað við að þetta er mikilvæg þjónusta en hérna held ég að löggjafinn sé einfaldlega að flagga mikilvægu markmiði sem er svo þýðingarmikið að það er fært í lög. Ég held að það sé algjörlega borðleggjandi að fjarskiptafyrirtækin geri engan ágreining um þetta atriði, en að það sé engu að síður gott að búa þannig um hnútana að þetta sé tryggt með lagasetningu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að í þessu frumvarpi, þegar maður fer að skoða ekki bara fjölda greina heldur rauða þráðinn, erum við aftur og aftur að fjalla um öryggi fólksins í landinu og ólíkar birtingarmyndir. 112 er kannski skýrasta verkfærið og það sem lítil börn þekkja strax. Þannig að það er góður bragur og þetta er góð, skynsamleg og falleg grein.