152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:37]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég vil kannski fyrst ítreka varðandi öryggi íbúa, sem hv. þingmaður kom inn á, að þetta frumvarp veitir einmitt Fjarskiptastofu heimild til að skilyrða tíðniúthlutanir. Þar er t.d. möguleiki að gera kröfu og setja kröfu á fjarskiptafyrirtæki um að veita hvert öðru reikiþjónustu. Það er kveðið á um það, m.a. í 14. gr. þessa frumvarps, að símtöl slitni ekki, það getur orðið til þess að símtöl slitni ekki á ferðum um þjóðvegina eins og raunin hefur verið og er þetta gríðarlega mikilvægt og í takti við þær breytingar sem verið er að vinna að í þessu frumvarpi, sem er auðvitað um samkeppnismarkað. Við erum með mikilvægan samkeppnismarkað og samkeppni á fjarskiptamarkaði og þetta frumvarp á að stuðla að virkri samkeppni en líka mjög mikilvægum skynsamlegum samþættingarþáttum til þess að tryggja öryggi fólks. Hér erum við að innleiða samræmt evrópskt regluverk og lögin kveða ekki á um, af því hv. þingmaður kom aðeins inn á það, takmarkanir á eignarhaldi, og það breytir bara ekki, hvert sem eignarhaldið er, hvaða lög og reglur gilda um fyrirtæki. Það hvíla á þeim mjög skýrar kvaðir hér, burt séð frá eignarhaldi. Í ljósi síðan alveg sjálfstæðra öryggishagsmuna þjóðarinnar þá geymir frumvarpið ákvæði sem byggja á áhættumati og kröfum sem við teljum okkur þurfa að gera til að Fjarskiptastofa geti gripið inn í til að tryggja m.a. áfallaþol fjarskipta og það er það sem skiptir máli; hvernig kerfið okkar fúnkerar, hvernig það virkar fyrir neytendur, það sé öryggi notenda, tækifæri o.fl., en ekki hver á. Þetta er kannski það helsta sem ég vildi benda á, sérstaklega varðandi öryggi íbúa.