152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Mig langar í fyrra andsvari að koma inn á það sem hv. þingmaður ræddi í sambandi við farsímasamband eða GSM-samband á þjóðveginum. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur hún verið búsett í Bolungarvík, þeim fallega stað, og þá bætast vandamál sem snúa að rafmagnsöryggi ofan á fjarskiptamálin á leiðinni þangað. Ég vil kannski vísa í það sem kom fram í orðum hæstv. ráðherra í andsvari við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þar sem ráðherra lýsti þeim miklu tækifærum sem í frumvarpinu felast en það er nú einmitt grundvöllur þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið hér í dag á seinaganginn hvað framlagningu málsins varðar og afdrif þess á síðasta þingi sem voru með miklum ólíkindum. Hv. þingmaður hefur verið búsett úti á landi og ég leyfi mér að fullyrða að frá þeim tíma, sem ég man svona nokkurn veginn hvenær var, er ég ekki viss um að farsímasambandið á leiðinni til Bolungarvíkur hafi raunverulega batnað. Það voru ýmsar kvaðir settar hvað reiki varðar á þjónustuaðila á sínum tíma sem hafa síðan verið að trappast niður. Varðandi tækifæri sem felast í þessu frumvarpi til hvata og í rauninni mögulegrar þvingunar, ef þörf er á, til reikisamkomulags rekstraraðila: Hvað telur hv. þingmaður að þarna geti munað miklu í (Forseti hringir.) gæðum þjónustu við landsbyggðina hvað samhangandi gemsasamband varðar á þjóðvegum landsins?