152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp um fjarskipti, þingskjal með hinu skemmtilega númeri 666. Við skulum vona að sú tala hafi ekkert að gera með það hvert framhald málsins verður. Ég vona að við náum að gera breytingar á lögum um fjarskipti en það er mikilvægt að gera þær breytingar á góðan hátt, á vel hugsaðan og ígrundaðan hátt, því að fjarskipti hafa aldrei verið jafn mikilvæg og nú. Fjarskipti eru forsenda og grunnur fyrir þá stafrænu umbyltingu sem samfélag okkar er að ganga í gegnum. Þá er mikilvægt að það lagaumhverfi, sem fjarskipti og fjarskiptafyrirtæki búa við, sé uppfært á vel ígrundaðan hátt eins og ég sagði áðan. Það er auðvelt að taka feilspor og lenda í vandræðum þegar jafn stór og mikilvægur innviður er undir.

Ég sakna þess að hér sé enginn frá stjórnarflokkunum að hlusta á þær athugasemdir sem ég ætla að setja fram um hvað þurfi að skoða betur í þessu frumvarpi og í þessu lagaumhverfi þegar verið er að vinna í því að leggja grunninn fyrir þá stafrænu umbyltingu sem við eigum eftir að upplifa næstu ár og áratugi. Það er nefnilega þannig með fjarskipti að þau tengjast þjónustu sem er þvert á landamæri. Við erum vön því nú orðið að geta haft samband hvert sem er í heiminum, hvenær sem er og á mjög auðveldan hátt. Það er ólíkt því sem gerðist þegar ég var ungur drengur að hringt var einu sinni í mánuði í frænda minn í Noregi, sem var þar í námi, því að það kostaði svo mikið og var svo erfitt, og þurfti jú að panta símtal til útlanda í gegnum talsamband við útlönd. Nú spjallar maður við ættingja hinum megin á hnettinum í rauntíma, hvenær sem maður vill. Þetta er þjónusta sem er ekki bara þvert á landamæri heldur er þetta þjónusta sem fer í gegnum loft, láð og lög og því er oft erfitt að ná utan um allt það flækjustig sem fylgir því að veita þessa þjónustu hvar sem er.

Ég vil meina að rétt eins og rafmagnið séu fjarskiptin einn af mikilvægustu innviðunum og grunnnetunum sem við höfum yfir að ráða hér á Íslandi. Um er að ræða innviði sem veita okkur þjónustu sem við treystum á í daglegu starfi og leik, en líka þegar neyð steðjar að. Þetta er þjónusta og innviðir sem skapa tækifæri til nýsköpunar og til að snúa við þeirri byggðaþróun sem við höfum upplifað undanfarna áratugi; skapar tækifæri fyrir uppáhaldsorð hæstv. ráðherra: störf án staðsetningar. Já, þetta skapar fullt af tækifærum þegar við gerum þetta rétt. En þetta getur líka skapað hættu. Það er mikilvægt fyrir okkur að passa, í allri lagasetningu á þessu sviði, að við séum að framkvæma mótvægisaðgerðir við þeim hættum. Og í hverju felst hættan? Jú, t.d. það sem oft hefur verið nefnt, netöryggið. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi skapar það eitt að fjarskiptafyrirtækjum er skylt að geyma gögn um öll fjarskipti — bara það að geyma gögnin — hættu á því að einhver geti náð í þau.

Við þurfum ekki að leita langt. Hér fyrir nokkrum árum kom nákvæmlega þetta fyrir eitt af fjarskiptafyrirtækjunum hér á landi, Vodafone, og kom í ljós að það var að geyma miklu fleiri gögn en bara upplýsingar um hver hringdi hvert. Þarna voru t.d. SMS sem höfðu verið send og orsökuðu víst einhverja skilnaði þegar þau komu í ljós. Netöryggið, og ég mun tala meira um það á eftir, er ein af grunnhættunum.

Við þurfum líka að hugsa um þetta út frá tækifærum og jöfnuði. Það er nefnilega þannig að aðgengi að þessari þjónustu getur verið mismunandi eftir því hversu gamalt fólk er. Í dag kunna þriggja ára krakkar að leika sér með iPhone en við eigum kannski sum ömmur eða afa sem ekki hafa lært að nýta sér þessa tækni mjög vel. Við tölum oft um tæknilæsi og það er mikilvægt að við gleymum ekki eldra fólkinu, sérstaklega fötluðum og öðrum hópum, þegar kemur að tæknilæsi. Ekki má heldur gleyma því, sem hefur verið nefnt hér í ræðum hjá öðrum þingmönnum, að það skiptir máli hvar þú ert. Það skiptir máli upp á aðgengi að þjónustu, það skiptir máli upp á hraða á þjónustu. Við þurfum líka að átta okkur á því að sumir hafa efni á ákveðinni þjónustu en aðrir kannski ekki. Við þurfum að passa að aðgengið sé jafnt.

Á sama tíma megum við ekki gleyma því að við erum lítill markaður. Við höfum aðeins örfá fjarskiptafyrirtæki hér á landi og hér ríkir í raun fákeppni á sviði fjarskipta. Þá er það svolítið erfitt þegar sumar reglurnar sem við erum að fylgja miðast við risastór lönd. Þar þurfum við að finna þennan meðalveg milli þess að skilja á milli hluta og þess að samnýta. Mér hefur þótt það áhugavert að erlendis er það t.d. mikið til orðið þannig að innviðirnir sjálfir, búnaðurinn sem sér um sendana og annað, eru oft samnýttir mjög mikið á milli fyrirtækja því að kostnaðurinn við að koma dreifikerfum upp alls staðar er hár.

Hér hefur verið rætt dálítið um 87. gr. frumvarpsins, um öryggi búnaðar frá hinum og þessum aðilum. Mér þótti athyglisvert að lesa frétt í dag á Ríkisútvarpinu um það hvernig tæknifyrirtækið Ericsson, sem stór hluti af okkar fjarskiptakerfi er einmitt byggður á, er í slæmum málum eftir að upp komst um mútur þess til íslamska ríkisins í Írak til að liðka til fyrir útbreiðslu farsímanetsins þar, og við erum að tala um milljónir dollara. Við getum horft þannig á það að þó svo að það sé sænskt fyrirtæki er siðferðið kannski ekki í nógu góðu lagi þar. Við höfum líka séð að nágrannar okkar og frændur í Danmörku hleyptu bandarísku leyniþjónustunni inn á grunninnviði farsímakerfisins hjá sér. Þó svo að þessi grein hafi upphaflega komið inn til að passa að Kínverjar væru ekki að njósna of mikið, í gegnum búnað frá Huawei, þurfum við kannski að setja spurningarmerki við búnað frá öllum aðilum. Ég vil einnig benda á að mikið er talað um öryggi og hluti sem tengjast þjóðaröryggi í frumvarpinu. Ég teldi það til mikilla bóta ef að hluta til væri í þessu frumvarpi að einhverju leyti, hvernig sem það er gert, í þingsköpum, vísað til utanríkismálanefndar til að fjalla um þjóðaröryggishlutann af því og finna þannig leiðir til að tryggja að við séum með belti og axlabönd, eins og einhver hefur orðað það, í þessum málum.

Mig langar að fara í nokkra kafla á meðan ég hef tíma til og ég mun sennilega nýta tækifæri mitt til að koma aftur í ræðustól og benda á fleiri hluti. Mér finnst athyglisvert að í 13. gr. frumvarpsins segir:

„Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á tíðnum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.“

Væri ekki gaman ef þessi setning væri líka í lögum um aðrar auðlindir?

Svo langar mig að fara í 18. gr. Í 3. mgr. 18. gr. er talað um heimild til að víkja frá ákvæðum um lágmarksgildistíma tíðniréttinda og eins er talað um úthlutun á tíðniréttindum. Ég hef undanfarin 12 ár verið að vinna við fjarskipti á neyðartímum út um allan heim og ég saknaði þess að í frumvarpinu væri ekki ákvæði um að geta heimilað notkun á tíðni og notkun á búnaði á neyðartímum sem komið er með erlendis frá. Það er nefnilega þannig að þann 20. júní 2003 skrifaði Ísland undir Tampere-sáttmálann sem gengur út á það að lönd veiti möguleika á því að koma með fjarskiptabúnað til að nota á neyðartímum inn í löndin án þess að þurfa að tolla þau og án þess að þurfa að sækja sérstaklega um leyfi. Þetta er hvergi í frumvarpinu en ég hefði viljað sjá einhvern horfa til þess.

Ég held að síðasta greinin sem ég næ að tala um núna, áður en ég bið um að komast á mælendaskrá aftur, sé 28. gr. um fjarskiptabúnað í farartækjum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslensk skip, loftför og önnur farartæki skulu búin fjarskiptabúnaði sem uppfyllir kröfur samkvæmt alþjóðlegum samþykktum …“

Nú er þetta næstum því eins og með baggið og menntastofnanirnar. „Önnur farartæki“ — þarf ég að vera með fjarskiptatæki á hjólinu mínu, þarf ég að vera með það í bílnum mínum? Kannski þarf að skilgreina þetta aðeins betur og vonandi tekur nefndin það til skoðunar. En bara rétt í lokin, af því að spurning kom áðan frá hv. þingmanni um símanúmerið 116 111, sem veitt er sérstök undanþága hér inni, en við höfum aldrei heyrt um. Þetta er notað í Evrópu fyrir það sem kallast, með leyfi forseta: Child Helpline International, en er því miður ekki í gangi hér.

Ég er greinilega búinn með tíma minn, frú forseti, og (Forseti hringir.) ég óska eftir að komast aftur á mælendaskrá til að klára yfirferð mína á greinum frumvarpsins.