152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður vísaði til reynslu sinnar á erlendri grundu og störf sín þar í samhengi við þætti sem honum fannst vanta upp á í þessu frumvarpi. Nú sit ég í umhverfis- og samgöngunefnd sem mun fá þetta frumvarp til meðferðar og hefði áhuga á að heyra nánar frá þingmanninum hvað það er. Ég hef verið að hugsa þetta út frá annars vegar þessum hættum sem geta leynst í náttúrunni sjálfri og hins vegar í þeim veruleika sem við tölum gjarnan um sem nýjan en er nú ekkert sérstaklega nýr. Ég held að Eistland hafi verið eitt fyrsta ríkið sem varð fyrir skipulagðri árás sem ríki. Það var í aprílmánuði árið 2007, skipulögð árás á fjölmiðla, vefsíður opinberra stofnana, bankakerfið, og hafði gríðarleg áhrif þá og var atvik sem breytti viðhorfum og takti þar í landi. Ég hefði áhuga á að heyra hvað þetta er.