152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:21]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þetta hjá hv. þingmanni, það er gjarnan þannig, hvort sem er í lífi fólks eða í aðstæðum samfélaga, að það er ekki fyrr en að lokinni einhverri reynslu sem brugðist er við. En af því að hv. þingmaður vísaði í samfélagið þá er það auðvitað eitt af grundvallarhlutverkum stjórnvalda að hafa þennan háttinn á. Þetta minnti mig á atriði sem ég heyrði á ráðstefnu um netöryggismál, sem ég hef vitnað til áður í þessum ræðustól, að Norðurlöndin tali enn um sig með þeim hætti árið 2020 og jafnvel 2022 að við séum framarlega á heimsvísu vegna þess að hér sé aðgengi að netinu svo gott. Það er ekkert til að státa sig af í dag, að við séum svo vel tengd. Breytan sem hefur eitthvað um það að segja hvort þjóðir standi framarlega í þessum efnum í dag hefur með öryggisþáttinn að gera, hversu vel varin við erum sem einstaklingar og sem ríki.