152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði falleg orð í garð Pírata og góða spurningu. Ég held að það sé margt í þessu frumvarpi sem komi á ramma utan um þau mál sem við höfum verið að gera hingað til hvað varðar netöryggi. Það sem ég sakna svolítið í frumvarpinu, þegar kemur að netöryggi, er að ég hefði viljað sjá meira samstarf við önnur tæknifyrirtæki í landinu. Það er t.d. til mjög mikið af mjög reyndu tæknifólki í netöryggismálum sem hvorki starfar hjá hinu opinbera né hjá þessum fjarskiptafyrirtækjum og ég hefði viljað sjá aukna samvinnu þar á milli vegna þess að rétt eins og þegar við þurftum að eiga við heimsfaraldurinn og við urðum öll almannavarnir þá er það nákvæmlega það sem þarf að gerast þegar kemur að netöryggi. Við þurfum öll að hugsa um netöryggi.