152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi tíðniréttindi, sem eru auðvitað mjög stór þáttur í þessu máli, og kom sérstaklega inn á mikilvægi þess sem hann kallaði neyðartíðni og var áhugavert að heyra mat hv. þingmanns á því. En það sem ég vildi þó spyrja um sérstaklega er í því ljósi að tíðniréttindi eru takmörkuð gæði: Er hv. þingmaður sáttur við með hvaða hætti þeim er ráðstafað? Væntanlega er ekki hægt að setja slík réttindi á uppboð án nokkurra skilyrða, enda er þetta hluti af grunninnviðum svo að líta þarf til annarra þátta en einfaldlega þess hvaða fyrirtæki kemur og býður hæsta verð hverju sinni. Líta þarf til heildarhagsmuna samfélagsins í svona stóru innviðamáli. En mætti standa betur að úthlutun tíðniréttinda?