152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:09]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það afhjúpast nefnilega enn og aftur að umgjörðin um auðlindanýtingu og auðlindarentu á Íslandi er ófullnægjandi. Það á við í fjarskiptum eins og í sjávarútvegi og annarri auðlindanýtingu þegar við erum að tala um takmarkaðar auðlindir. Ég hygg að það væri bara ágætt fyrir fulltrúa í nefndinni og eflaust þingmenn alla að taka upp góða skýrslu sem kom út í september árið 2000 frá auðlindanefndinni, sem starfaði undir stjórn Jóhannesar Nordals og í sátu margir þingmenn, og lesa hana aftur vegna þess að þar er farið yfir grundvallaratriði þess hvers vegna hver einasta þjóð þarf að leggja á gjöld þannig að rentan renni til eigandans. Rentan renni til almennings og stjórnvöld sjái svo um tilfærslurnar sem af því hljótast, hvort sem það gæti farið, eins og í þessu tilviki, til fjarskiptamála eða uppbyggingar á fjarskiptum um allt land eða í annað. Þetta er grundvallaratriði og það er alltaf verið að forsmá það.