152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Netöryggið hérna er áhugavert umræðuefni því að oft er farið með það eins og að allt reddist með meiri lögreglu og allt reddist með meiri sýnileika. En rétt eins og löggæslustörfin eru flókin og sú þjónusta sem lögreglan veitir margvísleg, meira til hjálpar en refsingar og ýmislegt svoleiðis, þá eru netöryggismálin það líka. Við upplifðum það dálítið í fyrri atrennu þessa frumvarps að Póst- og fjarskiptastofnun vildi gera netöryggissveitina, eins fallegt nafn og það er, að nokkurs konar njósnasveit í staðinn fyrir netöryggissveit. Í því regluverki sem aðrar netöryggissveitir í löndunum í kringum okkur vinna samkvæmt eru þær samskiptaaðili, miðlægur samskiptaaðili sem tekur við ábendingum um mögulega vankanta og passar að allir fái þau skilaboð strax, allir samstarfsaðilar í öllum löndum, sem geta síðan dreift því til samstarfsaðila sinna og fjarskiptafyrirtækja. Það sem hefur verið lagt til hérna er hins vegar að netöryggissveitin setji búnað í öll fjarskiptafyrirtæki og taki einhvern veginn að sér ábyrgðina á því að vakta hvort eitthvað slæmt sé að gerast í staðinn fyrir að fjarskiptafyrirtækin séu sérfræðingarnir í sínum kerfum af því að þau eru betur til þess fallin að stilla þau til samkvæmt þeim hættum sem að steðja ef þau fá upplýsingar á skjótan máta um það. Umsagnir síðast voru á þá leið að ef njósnasveitin sæi um þetta eftirlit myndu fjarskiptafyrirtæki náttúrlega halda að sér höndum og segja bara: Ég þarf ekki að fylgjast með neinum, netöryggissveitin, eða njósnasveitin, er að gera það. Netöryggismál hvað þetta mál varðar (Forseti hringir.) eru pínulítið flóknari en bara: Meira netöryggi, þá reddast allt.