152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru áhugaverðir punktar. Annars vegar er það auðvitað þekkt úr sögunni á ýmsum sviðum að það sem kallað er eftirlit í þágu öryggis er stundum misnotað af stjórnvöldum til að m.a. njósna um borgarana og það er eitt af atriðunum sem ég náði ekki að koma inn á í fyrri ræðu minni hér, persónuverndarmál tengd þessu frumvarpi.

Svo er hitt sem hv. þingmaður nefndi varðandi verkaskiptinguna sem mér þótti afar áhugavert en verð bara að viðurkenna að mig skortir þekkingu á þessu sviði til að geta bætt nokkru við það sem hv. þingmaður nefndi. Ég leyfi mér þá hugsanlega, sem er kannski ekki til siðs hér í andsvörum, að spyrja þann hv. þingmann sem er að spyrja, ég veit að hann tekur því vel, enda mjög fróður um þessi mál, hvernig að mati hv. þingmanns eftirliti með öryggismálum væri best háttað. Hvar á það helst heima og hvernig yrði verkaskiptingunni best háttað? Og svo ef tími gefst til er ég enn að velta fyrir mér þeirri spurningu sem ég velti upp áðan: Hvað er yfir höfuð hægt að gera til að bregðast við ógnum á veraldarvefnum eða öðrum rafrænum ógnum?