152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni svarið. Ég veit að hann var ekki að reyna að rugla mig en honum tókst það nú samt. Því einfaldara sem þetta er, því betra. Ef það er málið þá held ég að hann sé að segja varðandi netárásir og netöryggi að við séum alltaf að elta skottið á sjálfum okkur. Ég held að svarið liggi bara í því að það liggur við að við getum gleymt þessu vegna þess að tækninni fleygir þannig fram, þekkingunni fleygir þannig fram að þeir sem eru í þessum öryggismálum eru alltaf einum, tveimur, þremur skrefum á eftir, hef ég á tilfinningunni. Hv. þingmaður upplýsir mig kannski um það, en ég lít enn þá þannig á netið að það sé best að vera með ekkert inni á netinu nema það sem ég vil að einhver viti um mig, svona að mestu leyti, vegna þess að ég geri mér enga grein fyrir því hvort einhver er að hakka mig eða ekki. Ég hef ekki þá þekkingu. Þar af leiðandi er öruggara, held ég — auðvitað geta ekki opinberar stofnanir hugsað þannig. Þær verða að passa upp á gögn og annað sem þar er. Við heyrum um allar þessar dulkóðanir. En það virðist vera alveg sama hversu margar og flóknar dulkóðanirnar verða, það virðist alltaf vera einhver sem finnur leið fram hjá því. Ef þetta er ekki rétt skilið þá upplýsir hv. þingmaður mig vonandi um það og sennilega gerir hann mig enn þá ringlaðri með því svari en ég er nú þegar.