152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta kemur alveg fullkomlega fram í seinni hluta þess sem ég ætlaði að fjalla um hérna, sem er sérþekking þingmanna. Þingmenn geta ómögulega verið sérfræðingar í öllu. Það er ekki séns. Allir 63 þingmennirnir hérna geta ekki verið sérfræðingar í öllum málefnum. Þess vegna virkar fulltrúalýðræðið á þann hátt að við treystum á umsagnir sérfræðinga. Og við, bara samkvæmt stjórnarskrá, leggjum okkar sannfæringu og samvisku í það að meta þær umsagnir, af eða á, hvað á við í hvert skipti og hvaða gildismat við ætlum að hafa þar á bak við án þess að vera sérfræðingar. En við reynum að leggja mat á umsögn sérfræðinga án þess að vera sérfræðingar sjálf. Við reynum þá að leita til annarra sérfræðinga sem geta kannski útskýrt það fyrir mér eins og ég væri fimm ára: Gætirðu vinsamlegast hjálpað mér aðeins með þetta? En við fáum oft ekki tíma til þess í meðförum þingsins og hvað þá varðandi svona mál sem eru heil bók, því að við erum jú líka bara 63 og við erum líka bara litla Ísland.