152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ef við ætlum að óttast að gerð sé stórfelld netárás sem slær öllu út ættum við einmitt ekki að vera að gera samninga við Microsoft um að það sjái um allar stofnanir ríkisins því að þá gefur einn öryggisgalli í Microsoft aðgang að öllum stofnunum íslenska ríkisins, skemmtilegt nokk.

Svarið við hinni spurningunni er nei. Það er vandamál í þessu frumvarpi sem tengist gagnageymdinni. Samkvæmt 89. gr. á að geyma í þágu sakamála ákveðna lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Eftir því sem ég best veit er Evrópusambandið búið að bakka með þessa gagnageymd út af persónuverndarástæðum. Hugsum þetta sem svo að við séum að rölta niður Austurstræti og við erum bara að spjalla saman. Það myndast engin skráning um samskipti okkar, að þau hafi á annað borð átt sér stað, en einhverra hluta vegna ef við eigum þau samskipti yfir netið í sýndarveruleika þá myndast þau tengsl; hérna hittumst við, hérna áttum við samskipti, hver á hvaða símanúmer, notendanafn, allar tengingar, dagsetningar, hverjum er tengst, magn gagnaflutnings á milli o.s.frv. Þetta eru upplýsingar sem verða til bara af því að það er mögulegt í netheimum að geyma þær en er greinilega eitthvað sem stjórnvöld myndu vilja geta gert með gangandi vegfarendur úti á götu. Það er ekkert öðruvísi við þetta. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er á þann hátt að búið er að staðfesta eða ítra hana í rauninni, (Forseti hringir.) að hún eigi líka við í stafrænum heimi. Það er gríðarlega mikilvægt að átta sig á því (Forseti hringir.) að spjall milli okkar á netinu er ekkert öðruvísi en spjall okkar úti á Austurvelli.