152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er ljóst að þetta verður að vera í forgrunni vinnunnar. Við verðum að vita hvað við erum að gera og ekki síður þarf almenningur, notendur þessarar tækni, að vita hvað við þurfum að gera og hvað liggur undir. Og aftur: Síst af öllu skal ég gera lítið úr mikilvægi öryggis og að við höfum allar þær varnir og þetta falli undir öryggisstefnu Íslands og að við tryggjum þetta en það má ekki vera á kostnað grundvallarréttinda okkar, ekki þegar við erum á sama tíma að verja akkúrat þessi grundvallarréttindi. Við þurfum að fylgja tækninni þarna og við þurfum að stýra henni en ekki láta hana stýra okkur í þessum málum. Það verður ekki létt verk en ég treysti þessari ágætu nefnd.

Mig langar að spyrja aðeins í lokin, af því við höfum rætt svolítið um gjaldtöku fyrir endurúthlutun tíðniheimilda og ég hefði áhuga á að heyra sjónarhorn hv. þingmanns á því. (Forseti hringir.) Þetta eru takmörkuð gæði. (Forseti hringir.) Við höfum ekki endilega frábæra sögu þegar kemur að sölu (Forseti hringir.) eða úthlutun á slíkum kerfum þannig að mig langar aðeins að heyra hugsanir hv. þingmanns um stöðuna þar.