152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:18]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég býst við að athugasemd Neytendastofu lúti að 62. gr. um réttinn til alþjónustu á viðráðanlegu verði. Það er auðvitað með svona hugtök að þau eru býsna matskennd og það kemur þá kannski í hlut ráðherra að skilgreina betur með reglugerð við hvað er átt. Hvað varðar sjálfstæða úrskurðarnefnd, er ekki sérstök úrskurðarnefnd fjarskiptamála að störfum sem mun hafa með svona mál að gera? Ég verð að viðurkenna að ég þekki frumvarpið ekki nógu vel, ekki út og inn, en Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað ákveðið eftirlitshlutverk. En eins og hefur verið gagnrýnt hér í dag eru kannski þessar auknu eftirlitskvaðir stofnunarinnar ekki fjármagnaðar almennilega, þannig að það er að ýmsu að hyggja hér. Ég vona bara að umhverfis- og samgöngunefnd leggist vel yfir athugasemdir, t.d. þær sem hv. þingmaður nefndi. Mér finnst það í anda góðrar lagasetningar að jafnvel þótt ekki verði brugðist við þeirri umsögn eða athugasemd þá verði það samt einhvern veginn útskýrt í nefndarálitinu hvers vegna það er ekki gert o.s.frv., að það liggi fyrir hvaða sjónarmið búa að baki lokaafurð þessa frumvarps sem við erum að ræða hér í dag.