152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég var að velta fyrir mér neytendamálunum af því að ræðan hjá hv. þingmanni kveikti þau hughrif en þeir þingmenn sem hér hafa komið upp í stólinn áður í andsvör voru á þeim nótum þannig ég ætla kannski að láta mér það duga. Mig langar samt á svipuðum nótum að velta því upp, og mig langar að heyra hug hv. þingmanns varðandi það, að í þessu frumvarpi, eins áhugavert og víðfeðmt og það er og mikilvægt, er kveðið á um að mörgu leyti auknar eftirlitsskyldur Póst- og fjarskiptastofnunar með hinum ýmsu kimum þessa stóra máls. Það er líka eiginlega kveðið á um aukna getu þessarar sömu stofnunar, þekkingu á málum, eins og kemur reyndar fram í umsögn þeirra við málið, til að geta sinnt þessu aukna eftirliti, þessu mikilvæga eftirliti. Það væri áhugavert að heyra hjá hv. þingmanni um þetta af því að við höfum oft búið við það að við ætlum eftirlitsstofnunum okkar býsna mikið án þess endilega að styðja við þær með því fjármagni sem þarf til eða bara yfir höfuð aðstöðu, allt frá því hvernig hlustað er á það sem þær hafa að segja. Hér tek ég t.d. Persónuvernd sem dæmi sem ítrekað kemur á fundi fastanefnda með innsýn sína og það er einhvers konar neðanmálsnóta ef það hefur verið tekið tillit til þess. En það væri áhugavert ef hv. þingmaður hefur leitt hugann að því við lesturinn á þessu máli (Forseti hringir.) hvort við gerum þessum eftirlitsstofnunum nægilega hátt undir höfði. Erum við að búa svo um hnútana (Forseti hringir.) að það sé tryggt að þær geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað að sinna gagnvart ákvæðum þessa frumvarps?