152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[21:30]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Hér er um gríðarlega mikilvægt frumvarp að ræða, eins og ég kom inn á áðan í andsvörum við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson, og rosalega mikilvægt að vanda til verka þegar kemur að svona stórum og umfangsmiklum breytingum á fjarskiptum á Íslandi. Eitt af því sem mig langar að koma inn á er hversu mikilvægt það er að halda utan um netöryggi. Við á Íslandi erum rosalega aftarlega í þeim málum. Svolítið skrýtið að land með eins flotta innviði og Ísland hafi ekki náð að útfæra netöryggismál og tryggja netöryggi til hins ýtrasta. Hvar á að draga línuna? Hvað telst vera raunverulegt netöryggi?

Það eru nokkrir hlutir sem varða frumvarpið sem ég væri til í að koma inn á. Ég ætla að byrja á nethlutleysi, sbr. 41. gr. fjarskiptalaga, en 71. gr. í frumvarpinu. Þar er komið inn á gæði þjónustunnar sem virðast vera vel tryggð en reglugerðarvald ráðherra gæti gengið í berhögg við þetta sem er svolítið áhugavert. Þar er komið inn á, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd nethlutleysis, m.a. um eftirfarandi …“ — Svo kemur tæmandi talning frá a- til f-liðar.

Þessi hegðun og svona lagaákvæði virðast vera „pattern“ — afsakið slettuna, forseti — hjá meiri hlutanum á þessu kjörtímabili, þ.e. að ráðherrar séu með svolítið mikið reglugerðarvald sem gæti gengið í berhögg við lögin sem eru sett. Það hefur m.a. komið fram í kosningafrumvarpinu og í nokkrum öðrum frumvörpum sem hafa verið lögð fram á þessu kjörtímabili og mun eflaust halda áfram að koma fram. Mér finnst það bara svolítið skrýtið. Hvað er því til fyrirstöðu að setja lög sem telja þetta upp? Hvers vegna er þörf á reglugerðarvaldi ráðherra sem virðist vera gjörsamlega endalaust á þessu kjörtímabili? Er það af því að ráðuneytin hafa ekki tíma, eru ekki nógu vel mönnuð til að vinna þessi frumvörp vel, til að setja ítarlegar lagagreinar eða lagaákvæði og útskýra þetta frekar ítarlega? Ég veit það ekki. Það er svolítið leiðinlegt að hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sé ekki hér til að svara þessari spurningu því að ég er virkilega forvitin.

Svo væri ég líka til í að koma inn á 72. gr. þar sem er kveðið á um binditíma upp á 12 mánuði. Reglugerðin gerir ráð fyrir fjögurra til sex mánaða binditíma en útfærslan í lögunum akkúrat núna er 12 mánuðir. Ég skil þetta ekki. Það er bara einhvern veginn mælt fyrir einu í lögum og svo hefur ráðherra reglugerðarvald til að breyta þessu. Ég bara botna ekkert í þessum vinnubrögðum ráðuneytisins og hvers vegna enginn hefur bent á þetta. Hafa þessi lög verið yfirfarin? Við höfum öll komið inn á þetta í dag sem höfum talað í þessu máli, hvort sem það er í fyrstu ræðu, annarri ræðu eða í andsvörum, hversu stórt og umfangsmikið mál þetta er, hversu gríðarlega mikilvægt það er að þetta sé unnið vel.

Einnig væri ég til í að koma inn á 83. gr. þar sem er mælt fyrir um samninga netöryggissveitar og fjarskiptafyrirtækja og þar er kveðið á um, með leyfi forseta:

„Ef Fjarskiptastofa metur það nauðsynlegt skal fjarskiptafyrirtæki og netöryggissveitin gera með sér samning um uppsetningu og rekstur tæknilegrar vöktunarþjónustu fyrir net- og upplýsingakerfi fjarskiptafyrirtækisins í þeim tilgangi að greina hættur og ummerki um árásir, spillikóða og aðrar vísbendingar um aðstæður sem gætu skapað hættu fyrir öryggi fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu fjarskiptafyrirtækisins.“

Þetta er rosalega skrýtið. Það er komið inn á framkvæmdina í 2. málslið en þar stendur, með leyfi forseta:

„Samningar skv. 1. mgr. skulu a.m.k. innihalda ákvæði er varða:

a. búnað og netkerfi sem tengist vöktun netöryggissveitar,

b. tæknilegar lausnir sem beitt er við vöktun, og

c. tegund og vinnslu þeirra gagna, þ.m.t. persónuupplýsinga, sem safnað er, meðferð þeirra, vistun og eyðingu.“

Já, flott. En ég skil ekki alveg á hverju Fjarskiptastofa byggir þetta nauðsynlega mat sitt á netöryggissveit. Það er búið að fjalla um framkvæmdina í greinargerðinni og hún er alveg ágæt en þetta er samt voðalega skrýtið ákvæði. Mér finnst þetta bara frekar matskennt. Við vitum náttúrlega öll, sem hluti af löggjafarvaldinu á Íslandi, að matskennd ákvæði á borð við þessi eru mjög varhugaverð. Við þurfum sérstaklega að passa okkur á því og ef ekki, þá bara að leggja til breytt orðalag. Ég vona að þetta verði tekið upp í hv. umhverfis- og samgöngunefnd af því að þetta er skringilega orðað og matskennt. Við getum ekki látið okkur hafa það, ekki þegar kemur að stóru máli eins og þessu.

Svo væri ég til í að koma aðeins inn á gagnageymdina en geyma má gögn í sex mánuði, sbr. 89. gr. frumvarpsins. Það er svolítið varhugavert líka. Þar er talað um, með leyfi forseta:

„Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda, svo og hvaða símanúmer tiltekinn viðskiptavinur var með á tilteknu tímabili.“

Í alvörunni talað, forseti? Þetta er skrýtið. Ég held að þetta ákvæði, 89. gr., fari á skjön við friðhelgi einkalífs og persónuvernd. Það eru bókstaflega taldir upp hlutir sem má geyma. Ég botna ekkert í þessu og ég skil þetta ekki. Ég væri virkilega til í að lesa mér aðeins betur til um hvers konar vinna og hvers konar mat fór fram við vinnslu á þessu frumvarpi. Ég er bara virkilega forvitin.

Ég held að mín helsta gagnrýni beinist reyndar að netöryggissveitinni. Það er eitthvað sem er mælt frekar sterklega fyrir um í frumvarpinu sem er lagt fram. Ég held að það þurfi töluverðan slag til að fá að breyta orðalaginu og helst bara innihaldinu í þessu frumvarpi, sem ég tel vera rosalega mikilvægt. Ég hef fulla trú á því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar muni taka mjög góðan slag í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og ég bíð bara spennt eftir umræðum sem munu fara fram í nefndinni. Ég veit að hæstv. ráðherra talaði um að frumvarpið þyrfti að komast í nefnd sem fyrst. Ég tek heils hugar undir það en að sjálfsögðu þurfum við að eiga umræðu um þetta frumvarp, enda erum við búin að vera að ræða það hér í allan dag. Það er bara það mikilvægt og það umfangsmikið að það getur ekki farið í nefnd án þess að við gerum okkar athugasemdir við það þannig að hægt verði að taka þær til greina á nefndarfundi.

Þetta er samt rosalega mikilvæg umræða sem á sér stað hér í dag og mig langar bara að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa afar mikilvæga umræðu sem snertir svo sannarlega margar hliðar samfélagsins. Hún er þörf og það er gott að við skulum taka hana hér og nú á löggjafarsamkomu okkar Íslendinga. Eins vil ég koma á framfæri þökkum til ráðherra fyrir þátttöku hennar í umræðunni. Eins seint og hún mætti þá tók hún alla vega þátt og mér fannst það bara vera mjög upplýsandi. Það er mikilvægt að fulltrúar framkvæmdarvaldsins nálgist málið af ábyrgð og festu með hag almennings að leiðarljósi og það er einmitt það sem við erum að gera hér í dag, enda hafa umræður staðið mjög lengi. Þegar við tökum umræðu á borð við þessa er mikilvægt að við nálgumst hana lausnamiðað og á þann hátt að hún sé líkleg til að koma okkur að sameiginlegri niðurstöðu. Ég vænti þess að ráðherra taki mið af umræðunni sem hér hefur átt sér stað við áætlanagerð sína til að ná fram sameiginlegum vilja þingsins og stjórnvalda allra.

Mér þykir ótrúlega gott að heyra að aðrir þingmenn séu mér sammála í því að við tökum þetta mál alvarlega. Ég tel að þær lausnir sem við ræðum hér verði að taka mið af því, enda hafa mjög margar lausnir komið fram í þessari pontu í dag og ég fagna því. Í alvörunni, ég geri það. Það er ótrúlega gott að sjá hversu málefnalegar umræður hafa verið og óskandi að svo verði oftar en við vitum alveg hvar við störfum og við vitum alveg hvernig starfshættir þingsins eru, aðallega framkvæmdarvaldsins. Að öðru leyti langar mig líka að þakka öllum sem hafa tekið þátt í umræðunni, og eins starfsfólki þingsins sem hefur komið að málinu, og um leið hvetja ráðherra til dáða í sínum góðu verkum. Ég vona að við getum áfram átt í uppbyggilegum og góðum samræðum um þetta mál, bæði hér á þingi og einnig út á við í samfélaginu.

Eins og ég sagði eru þetta bara rosalega mikilvægar umræður sem hafa átt sér stað í dag og eins og ég kom inn á í andsvörum áðan er þetta frumvarp 130 blaðsíðna bindi. Þetta er eiginlega bara bindi og þetta er frekar óskiljanlegt. Eins og það sé ekki nógu erfitt að skima í gegnum öll skjölin sem er útbýtt daglega, og ég bara fagna því, en þetta er virkilega umfangsmikið og stórt bindi sem við erum að vinna með hér í dag. Skiljanlega hafa miklar umræður átt sér stað og við erum að fara í andsvör til að öðlast meiri skilning á þessu frumvarpi, á þessu stóra og mikilvæga frumvarpi. Þetta varðar náttúrlega netöryggi, sem er ekki allra, og fjarskipti almennt, sem eru bara gríðarlega mikilvægir innviðir hér á landi. Þess vegna höfum við öll gott af því að halda áfram að ræða þetta þangað til við höfum komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig við viljum beita okkur fyrir þessu í hv.umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég hef ekkert meira að segja, forseti. Ég kveð að sinni og hlakka til að taka andsvör.